Það er ótúlegt
til þess að hugsa að nú séu liðin 20 ár frá því að litli Kristófer Atli kom í
heiminn svo fullkominn og fallegur. Frískur og kraftmikill. Ég 18 ára gömul og
þóttist alveg klár í slaginn. Það væri fátt sem ég treysti mér ekki til að
takast á við í hinu nýja hlutverki, að vera móðir. Ég væri nú ekki sú eina og
alls ekki sú yngsta. Allstaðar í kring um mig voru ungar mæður. Og eldri mæður,
með reynslu, svo engu var að kvíða.
Þegar maður er
18 ára heldur maður að maður geti allt. 38 ára gömul sé ég að ég hafði svo sem
ekki á svo röngu að standa.
Að ganga með
barnið og koma því í heiminn fannst mér ekkert svo erfitt, reyndar auðveldara
en ég hafði ímyndað mér. Að fá loksins að halda á litla krílinu, sem hafði
spriklað svo kröftuglega í bumbunni minni, var dásamlegt. Að gefa brjóst, „pís
of keik“ bleyjuskipti, næturbrölt og þvottastúss, óþarfi að tala um það. Fyrsta
vikan gekk stórkostlega og átalaust fyrir sig. Við komum heim af sjúkrahúsinu
og allt í lukkunnar velstandi. En þá fór að halla aðeins undan fæti. Litli
kúturinn kominn með hita og ég, unga móðirin, sem gat allt, hringdi á hjúkkuna
sem sagði mér að hafa ekki áhyggjur, þetta væri allt eðlilegt. Ég hugsaði að
auðvitað hefði hún á réttu að standa. Konan með reynsluna hlyti að hafa á réttu
að standa. Ég bara 18, þó ég gæti allt, vissi ég kannski ekki allt. Ég fór
eftir ráðleggingum hjúkkunnar og ýtti áhyggjunum burt. Hitinn fór hækkandi og
áhyggjurnar með og alltaf var sama svarið frá hjúkkunni; allt eðlilegt, hafðu
ekki áhyggjur , gefðu honum stíl. Svona gekk þetta þangað til mér var nóg boðið
og fór með drenginn til læknis, sem gaf honum lyf við útbrotum sem voru byrjuð
að myndast og hita. Pensillín. Heim fór ég, með aðeins minni áhyggjur en
áhyggjur samt. Ég náttúrulega bara 18 og kunni ekkert á svona lagað. Ástandið
lagaðist ekkert og drengurinn var orðinn mjög veikur og heil vika liðin. Og þó
ég væri bara 18 vissi ég að þetta gat ekki verið eðlilegt svo ég arka með
drenginn upp á sjúkrahús og segi farir mínar ekki sléttar. Aðkomulæknir að
sunnan tekur á móti okkur, ungu móðurinni og litla lasna drengnum. Við vorum
send með næstu vél suður til Reykjavíkur og beint inn á Landsspítala. Þar sem
syninum var kippt úr höndunum á mér og farið með eitthvert á bakvið og þar sem
hann var skoðaður í bak og fyrir. Það sem óttast var mest, var að hann væri
kominn með heilahimnubólgu. Næstum klukkustund síðar kom læknirinn fram og
tilkynnti okkur að svo væri ekki en enga skyringu væri að finna á þessum
veikindum svo nú væri ráð að leggja drenginn inn til rannsóknar. Mér var létt
yfir heilahimnubólgufréttunum en var hrædd um að eitthvað annað kæmi upp, ekki
síður ógnvænlegt. Eftir miklar rannsóknir næstu daga kom í ljós að drengurinn
var blæðari. Það vantaði allt storknunarefni í blóðið. Einhver vírus eða veira
hafði hreiðrað um sig en ekki væri hægt að komast að því hvort eða hvað væri
vegna þess að hann hafði áður verið settur á pensillín sem kæmi í veg fyrir að
hægt væri að rækta blóðsýnin. Þar sem ekki var vitað hvað væri var hann settur
í einangrun á barna gjörgæsludeild. Þarna stóðum við, með fullt af svörum og
enn fleiri spurningar. Ég var náttúrulega bara 18 ára og vissi akkúrat ekkert
um þessi mál. En áfram stóð ég á mínum sterku beinum og baráttunni skyldi áfram
haldið.
Mikill
blóðvökvi hafði safnast inn á kviðarhol litla drengsins og þurfti því að setja
brunn svo hægt væri að tappa af kviðarholinu reglulega. Ýmsum efnum var bætt í
blóðið til að auka storknun, gerð voru blóðskipti þrisvar, ef ég man rétt og
allt reynt til að bæta ástandið. Kviðurinn þandist út milli þess sem tappað var
af. Útlitið var ekki gott. Fjölskyldur okkar voru nú komnar okkur foreldrunum
til stuðnings. Sem betur fer, því ég var bara 18 og gat ekki allt, alveg ein.
Nú gat brugðið til beggja vona svo drengurinn var skírður skemmri skírn. Og
fékk nafnið Kristófer Atli. Svo fór, að allt fór á versta veg. Lungun gáfu
undan blóðvökvanum í kviðarholinu. Hjartað hætti að ská.
Eitthvað sem 18
ára gamalli móður datt ekki til hugar að gæti gerst, gerðist. Á tuttugu og
tveimur sólarhringum upplifði ég mestu gleði, mestu erfiðleika og mestu sorg
sem nokkur móðir getur upplifað. Sama hve gömul eða ung hún er.
Framundan var
erfiður tími með jarðarför,í fyrsta skipti á ævinni, spurningum og bið eftir
svörum. Kaldur og dimmur vetur. Þökk sé móður minni gekk allt sem þurfti að
ganga, eins og berserkur planaði hún og framkvæmdi og undirbjó jarðarför. Og
stóð við hliðina á mér, sterk eins og klettur. Ég veit ekki hvað gerðist, en
einhvern veginn stóð ég þetta af mér. Mannsheilinn er furðulegt fyrirbæri, hann
deyfir mann og lætur mann gleyma. Enn þann dag í dag, man ég varla eftir
jarðarförinni eða dögunum fyrir, eða dögunum og vikum eftir. Ég þurfti fylgd í
kirkjugarðinn daginn eftir, því ég rataði ekki. Og mundi ekki hvar drengurinn
minn var grafinn. Þarna var ég 18 ára og buguð af sorg. Og fannst ég ekki geta
þetta.
En sagt er að
tíminn lækni öll sár. Það er nokkuð til í því. Þó eftir sitji stórt ör, sem ég
alltaf mun finna fyrir, þá stend ég enn. Og ég gat þetta. 18 ára gömul.
Þegar ég lít
til baka, þá sé ég og ég held, að ég geti allt. Fyrst ég stóð þennan byl af mér
og marga aðra sem á eftir komu. Svartnætti og þunglyndi. Þá þraukaði ég. Ég er
sú menneskja sem ég er í dag vegna þessa. Sterkari og reynslunni ríkari.
Hönd þín snerti
sálu okkar
Fótspor þín
liggja um líf okkar allt.
No comments:
Post a Comment